Við lögðum af stað um kl. 16:30 og fórum á Þingvöll í rosalega góðu veðri. Ég var pínulítið pirraður enda hafði ég ekki fengið að sofa eins og ég þurfti því að pabbi var alltaf að vesenast eitthvað þannig að ég náði einhvenvegin aldrei almennilegum blundi. En svo sofnaði ég loks þegar búið var að grilla og ganga um í náttúrunni og taka fullt af myndum. Svo vaknaði ég um kl. 01:00 og var alveg óður. Mömmu og pabba fannst eins og að ég væri hræddur. En ég róaðist fljótt og svaf til kl. 09:00 um morguninn. Ég fékk hafragraut og lýsi eins og venjulega og fór og gaf nokkrum öndum sem voru á svamli á vatninu. Sofnaði svo aftur í 2 klst. og var þá orðinn eins og ég á að mér að vera, góður og brosmildur. Við fórum á rúntinn og fórum í nýja fræðslusafnið á Þingvöllum og keyptum okkur ís í þjónustumiðstöðinni. Við grilluðum um kvöldið og ég veiddi með pabba. Við veiddum tvo titti sem pabbi var svo góður að sleppa aftur. Ég svaf líka vel næstu nótt. Mamma og pabbi höfðu það notalegt um kvöldið og ég var ósköp góður. Við fórum heim seinnipartinn á föstudeginum þó að veðrið væri enn gott. Við fórum Nesjavallaleið heim og var ægifagurt þar og tók pabbi nokkrar myndir. Pabba langar voða mikið í sumarbústað sem við sáum þar á leiðinni en ég held að hann hafi ekki efni á að kaupa hann þó að hann væri til sölu. Dagurinn leið með því að amma og afi komu til að kíkja á mig enda ekki búin að sjá mig í tvo daga. Ég var síðan rétt búinn að stinga mér í bað þegar Rannveig og Jón Ingi komu í heimsókn. Þau dúlluðu með mig eftir baðið og mamma fékk að fara í bað og ganga frá eftir útileguna. Þegar ég var sofnaður bættist Ingó í hópinn og úr varð fínt kvöld hjá “gamla” fólkinu.
Fyrri síða Síða 51.
 
Laugardaginn 10. ágúst varð ég 10 mán. og við lögðum af stað á “limmanum” mínum og fórum að sjá “Gay Pride” gönguna og gengum með seinni part göngunnar. Mér þótti nú ekki meira til en svo að ég steinsofnaði með nefið á milli fótanna á mér. Mamma og pabbi komu við í Dressmann og dressuðu pabba gamla upp því að þau ætluðu á Humarhúsið um kvöldið. Ég fór hins vegar í gistingu til ömmu og afa og var kominn til þeirra kl. 18:00. Ég var nú svo sáttur við það að ég stóð á tröppunum og veifaði til mömmu þegar hún fór, var bara eiginlega feginn að fá smá frið frá henni.......ég segi nú bara svona. Amma og afi fóru með mig á sunnudeginum að gefa öndunum á tjörninni og ég kom ekki heim fyrr en um kl. 14:00. Þá var ég voða þreyttur og fór að sofa með mömmu og svaf í 2 klst. Þá var nú eiginlega kominn kvöldmatur og gerði ég honum góð skil. Ég var í brattari kantinum eftir kvöldmatinn þannig að það var ákveðið að kíkja í nýja húsið til afa Þórðar og Dísu. Mamma hafði aldrei komið þangað en ég var búinn að koma þar áður með pabba. Mamma hélt varla vatni yfir hvað það væri flott. Þegar við vorum að fara þar útúr dyrunum sáum við þann skírasta og fallegast regnboga sem sögur fara af en pabbi var því miður ekki með myndavélina en afi tók mynd og líka af mér og mömmu. Á mánudeginum gerðist svo sem ekkert markvert. Mamma fór í vesturbæinn og ég og pabbi skruppum í smá gönguferð og ég sofnaði bara. Svo fóru ég og mamma aðeins til ömmu og afa í Blesu. En þá vildi ekki betur til en svo að við mættum þeim og voru þau þá á leið í heimsókn þannig að við fórum bara beint heim aftur.
Síða 52. Næsta síða