16. júní – 8. júlí 2002:
Sæl vinir mínir.
Nú þarf ég aldeilis að taka í lurginn á henni mömmu minni. Það er svo langt síðan hún skrifaði að hún er örugglega búin að gleyma helmingnum af því sem ég hef verið að brasa. Hún ætti nú að passa sig, ég nefnilega stækka svo fljótt að bráðum ræð ég alveg við hana. En hún ætlar nú að reyna að pára hér eitthvað, vonandi af viti. En það er helst frá því að segja að svefninn hjá ömmu og afa gekk mjög vel. Ég vaknaði að vísu og lét ófriðlega um stund eins og ég geri alltaf en að öðru leyti var þetta bara fínt. Svo komu afi og amma með mig heim um kl. 10:30 og ég sofnaði fljótlega hjá mömmu og svaf vel og lengi. Svo fórum við mamma í göngutúr og svo var bara verið að dúllast. Annars leið þessi helgi án mikilla atburða og ég fékk ekki að fara í bæinn á 17. júní, heldur fór mamma með mig á rúntinn. Fórum m.a. til Ingibjargar frænku en þar var enginn heima, komumst svo að því að þau voru í sumarbústað. Þá fórum við aðeins í Blesuna og fékk ég pönnuköku sem mér fannst nú hálf klístruð en þegar ég var búinn að venjast viðkomunni þá renndi ég henni í mig. Svo vorum við bara að kúrast heima, það var ekkert sérstakt veður þennan dag. Svo var mamma að vesenast hjá Kristínu og ég var hjá ömmu í Blesu, við erum svo góð saman, förum í gönguferðir í Elliðaárdalinn o.fl. o.fl. Eins og ég var búinn að segja þá man mamma nú ekkert. En hún heldur samt að það hafi ekki verið margt sem gerðist þessa vikuna. En svo á laugardeginum, 22. júní, voru Linda og Sveinn Ómar að gifta sig og mamma og pabbi fóru þangað.
Fyrri síða Síða 33.
 
Amma og Páll komu til mín og við byrjuðum á að fara í langan göngutúr í Ásgarðinn og þvínæst í Blesuna. Ég fékk ís með ömmu og fannst það nú ekki alveg ónýtt. Um kvöldið var ég pínu erfiður að sofna og amma var að hugsa um að hringja í mömmu og pabba en þá bara varð ég góður og sofnaði. En ég er nú oft svolítið leiðinlegur að sofna, líka hjá mömmu og pabba þannig að þetta er nú bara daglegt brauð. Á sunnudeginum vaknaði ég aðeins fyrr en foreldrar mínir vildu en þau létu sig hafa það, pabbi fór með mér fram og mamma svaf áfram. Ég sofnaði aftur um hádegið og svaf í næstum 2 klst. Síðan skruppum við öll í Blesuna, afi og amma léku við mig og gamla settið mitt kastaði sér í sófann og dormaði þar um stund. Síðan kom auðvitað mánudagur og pabbi þurfti að vinna og ég og mamma fórum í Blesuna og ég var skilinn eftir þar á meðan mamma skrapp í Vesturbæinn. Síðan fórum við mamma að versla ýmislegt á þriðjudeginum. Við fórum líka á pósthúsið að senda pakka til Hauks í Boston. Hann á nefnilega 1 árs afmæli 9. júlí. Við keyptum hettuhandklæði, liti, teikniblokk og bók. Verst að geta ekki verið hjá honum en svona er þetta. Ég tek nú bara í lurginn á pabba hans fyrir að flytja svona langt í burtu með hann....!!! Á miðvikudeginum fórum við mamma í Kringluna að spóka okkur og svo vorum við bara að leika okkur. Á fimmtudeginum komu afi og amma og náðu í mig og löbbuðu með mig í Blesuna en mamma var eitthvað að bardúsa á meðan. Hún náði svo í mig og pabbi kom svo og náði í okkur þegar hann var búinn að vinna. Mamma þurfti nefnilega að skila bílnum hans afa.
Síða 34. Næsta síða