Mömmu langar að ég fari á fleiri námskeið og ég held nú að ég fari á næsta líka. Við munum líka alveg að við fórum í heimsókn til Rannveigar og Jóns Inga á uppstigningardag, 9. maí. Sigga Bogga var, því miður, ekki heima en hún hafði farið í heimsókn til ömmu sinnar og afa á Skaganum. Við stoppuðum þar um stund og ég knúsaði Rannveigu einhver ósköp, hún er nefnilega skotin i mér eins og svo margar aðrar konur. Á föstudaginn 10. maí fórum við í sumarbústað í Úthlíð ásamt ömmu og afa. Afi á afmæli á mánudaginn 13. maí og við gáfum honum þessa ferð í afmælisgjöf. Við vorum komin í bústaðinn um kl. 17:00 og fórum strax í Úthlíð að fá lykil að bústaðnum en í þetta sinn leigðum við af Birni, hinum fræga Úthlíðarbónda. Fyrst fengum við Breiðu Bungu og mamma var ekki ánægð með það, af því að þar var bara hálfónýtt kolagrill og brotið glas á veröndinni, og hringdi því í frúna og fékk annan bústað, Stóru Bungu. Okkur var sagt að potturinn væri hreinn og ákveðið var að skella sér í hann en hann var nú svo subbulegur að hann var slímugur. Pabbi þreif hann svo allan. Mamma byrjaði á að þrífa sturtubotninn og vaskinn svo að hægt væri að tannbursta sig og fara í sturtu eftir pottinn. Sóðaskapurinn og slarkaraskapurinn á öllu þarna er svoleiðis að varla er hægt að lýsa því með orðum. Ég fékk reyndar bara að fara einu sinni í smá stund í pottinn af því að það var hvasst og mjög kalt þó að sólin skini glatt. Við fórum svo að skoða Geysi og Gullfoss og fórum á safnið í Geysisstofu en ég fór ekki út við Gullfoss því það var svo hvasst. Eftir grill og fínheit á laugardagskvöldið heimsóttum við vinnufélaga afa, sem heitir Arnar og konuna hans sem heitir Olla.
Fyrri síða Síða 19.
 
Þau eiga bústað þarna, og það vildi nú ekki betur til en svo að við læstum okkur úti og þá kom Björn bóndi og opnaði fyrir okkur og var ekkert nema elskulegheitin.
Svo grilluðum við og höfðum það huggó á sunnudeginum áður en við fórum heim. Mamma og amma þrifu eins og hægt var á sunnudeginum en ætluðu nú ekkert að þræla sér út við það þar sem ekki var nú svo fínt þegar við komum. Síðan sagði mamma við Björn að henni hefði þótt sóðalegt og hann varð drullufúll og skellti hurðinni á hana. Mamma skrifar þetta að sjálfsögðu hér og vonast til að einhver láti hann vita af þessum skrifum því hana langar svo að hann viti hvað hann er mikill dóni og vonast líka til að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það leigir rándýran bústað af honum. Það væri nú sennilega betra bara að fá að liggja í fjárhúsi einhversstaðar heldur en að liggja þarna í subbuskapnum. En niðurstaðan er sú að við leigjum aldrei aftur bústað af Birni bónda í Úthlíð.
En hvað sem því líður þá höfðum við það gott í bústaðnum. Amma var voða mikið með mig, fór með mér á fætur og gaf mér hafragraut og svoleiðis og leyfði mér svo að vera úti í sólinni á pallinum. Svo svaf ég líka hjá henni til kl. 05:30 á sunnudagsnóttina eða þangað til að ég þurfti að fá brjóst og þá fór ég til mömmu. Á mánudaginn var ég hjá ömmu frá kl. 14:00 og fór með henni í gönguferð í Fossvogsdalinn. Ég fór líka að skríða hjá ömmu. Ég er á parketinu og amma setur dót fyrir framan mig og ég tosa mig áfram á höndunum og næ í dótið, þá verða allir svo kátir og klappa fyrir mér og ég veðrast allur upp og verð rígmontinn.
Síða 20. Næsta síða